Í maí síðastliðinn voru fluttar út vörur fyrir 52 milljarða króna og inn fyrir 69,3 milljarða króna. Vöruviðskiptin í maí voru því óhagstæð um 17,3 milljarða króna. Í maí 2017 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 23,6 milljarða króna á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn í maí 2018 var því 6,3 milljörðum króna lægri en á sama tíma árið áður. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn í mánuðinum 14,7 milljörðum króna samanborið við 17,5 milljarða króna halla í maí 2017. Hagstofa greinir frá þessu.

Á tímabilinu janúar til maí 2018 voru fluttar út vörur fyrir 236,3 milljarða króna en inn fyrir 299,5 milljarða. Halli á vöruskiptum við útlönd nam því 63,2 milljörðum króna. Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 71,3 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn janúar til maí er því 8,1 milljarði króna lægri en á sama tíma fyrir ári síðan. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn 48,4 milljörðum króna, samanborið við 61,1 milljarð króna á sama tíma árið áður.

Útflutningur

Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2018 var verðmæti vöruútflutnings 37 milljörðum króna hærri en á sama tímabili árið áður, eða 18,5% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 52,6% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 12,9% hærra en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 40,8% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 27,2% hærra en á sama tíma árið áður. Aukning var í nær öllum undirliðum sjávarafurða en mestu munar um aukningu í ferskum fiski og frystum flökum.

Innflutningur

Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2018 var verðmæti vöruinnflutnings 28,9 milljörðum króna hærri en á sama tímabili árið áður, eða 10,7% á gengi hvors árs. Mestu munar um innflutning á eldsneyti og fjárfestingu í flugvélum.