*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 17. mars 2020 12:34

Voxis hálsbrjóstsykur seldist upp í Kína

SagaNatura hefur sölu á hálsbrjóstsykri við flensueinkennum í heimsendingarþjónustu í Kína. Hindrunum rutt úr vegi.

Ritstjórn
Lilja Kjalarsdóttir framkvæmdastjóri SagaNatura og Sjöfn Sigurgísladóttir stjórnarmaður ásamt David Tong-Li frá Orka Iceland á fundi með Mr. Guisheng Chen, yfirmanni viðskiptardeildar Kínverska sendiráðsins í síðustu viku.
Aðsend mynd

Sala á íslenskum Voxis hálsbrjótsykri og Keynatura fæðubótarefni er hafin í Kína en Voxis er einmitt sérstaklega notað við kvef- og flensueinkennum segir í tilkynningu frá félaginu. Íslenska hvönnin spilar lykilhlutverk í virkni Voxis en í jurtinni eru veiruvirk efni og efni sem mýkja hálsinn.

SagaNatura er framleiðandi Voxis hálsbrjóstsykursins og Keynatura fæðubótarefnalínunnar og eru þessar vörur afrakstur áralangs rannsóknar- og þróunarstarfs hér á landi. Fyrstu tvær sendingarnar af Voxis fóru til Kína fyrir áramót og hefur salan farið fram úr björtustu vonum en varan seldist strax upp.

Voxis er ekki selt í verslunum í Kína heldur á netinu, wechat og í gegnum sjónvarp. Vegna kórónafaraldursins var á tímabili erfitt að koma vörunum inn í Kína en þeim hindrunum hefur nú verið rutt úr vegi og er næsta sending nú á leið á markaðinn.

SagaNatura er með samning við Orka Iceland um dreifingu á vörum félagsins í Kína. Eftir vel heppnað upphaf á sölu Voxis er næsta skref að koma vörum Keyatura inn á markaðinn en mikill undirbúningur liggur að baki þessari útrás fyrirtækisins á kínverska markaðinn.

Stjórnendur SagaNaturu áttu ásamt fulltrúa dreifingaraðila fund í liðinni viku með viðskiptafulltrúa í Kínverska sendiráðinu á Íslandi þar sem hann lýsti ánægju með að sjá afurðir úr íslenskri náttúru fluttar inn til Kína.

Stikkorð: Kína Kína Saga Natura Voxis kórónoveira