*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 4. október 2019 07:46

Vöxtur alla mánuði ársins

Knútur Rafn Ármann á Friðheimum segir íslenska ferðaþjónustu verða að byggja á gæðum fremur en treysta á fjölda ferðamanna.

Ritstjórn
Knútur og Helena munu bráðum hafa búið á Friðheimum í aldarfjórðung.
Haraldur Guðjónsson

Árið 1995 fluttu hjónin Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir frá Reykjavík 25 ára gömul og keyptu bæinn Friðheima í Biskupstungum. Þau eru bæði uppaldir Reykvíkingar en þau langaði að spreyta sig á landbúnaði. Þá höfðu Friðheimar ekki verið í byggð um nokkurra ára skeið. Fyrstu árin fóru í að byggja upp búskapinn og sinntu þau helst garðyrkju og hestamennsku. Fyrir áratug opnuðu þau gróðurhúsið fyrir ferðamönnum og hófu veitingarekstur. Veitingastaðurinn, sem er inni í gróðurhúsinu tekur nú 160 manns í sæti og er uppbókaður stærstan hluta ársins auk þess sem þau bjóða upp á hestasýningar.

Fyrsta árið í ferðaþjónustunni, árið 2008, komu 900 gestir en Knútur á von á um nálægt 190 þúsund gestum í ár. Þá er ein stærsta garðyrkjustöð landsins á Friðheimum, þar sem þau hafa sérhæft sig í tómatarækt.  Um tonn af tómötum er ræktað á dag á Friðheimum sem samsvarar um það bil 18% af heildarframleiðslu af íslenskum tómötum.

„Sumarið var rosalega fínt. Veðurfarslega var það alveg frábært á Suðurlandi sem skilaði sér í aukinni aðsókn gesta og góðri uppskeru í garðyrkjunni," segir Knútur.

Knútur segir óvissuna meiri fyrir komandi vetri en oft áður vegna minna framboðs á flugferðum til og frá Íslandi, sér í lagi eftir gjaldþrot Wow air. „Maður veltir fyrir sér hvernig næsti vetur verður. Út frá bókunarstöðu og hljóðinu í okkar birgjum þá líst mér bara nokkuð vel á stöðuna. Við höfum ekki fundið fyrir samdrætti ennþá. Það hefur verið vöxtur hjá okkur alla mánuði ársins hingað til. Við erum auðvitað vel í sveit sett á gullna hringnum þar sem margir ferðamenn fara um."

Eins og staðan er núna reiknar Knútur með svipuðum vetri og fyrir ári. „Það er kannski einhver skemmtileg bjartsýni í því."

Hann segir stöðuna í ferðaþjónustunni mjög áhugaverða eftir öra fjölgun ferðamanna síðustu árin. „Þegar við fórum inn í ferðaþjónustuna fyrir áratug vorum við búin að keppa í grænmetinu lengi. Í íslensku grænmeti erum við að keppa í gæðum alla daga og við vildum standa fyrir það sama í ferðaþjónustunni. Ég er alltaf sannfærðari og sannfærðari um að íslensk ferðaþjónusta eigi að byggja á gæðum. Við erum ekki ódýrasta landið til að heimsækja en á móti eigum við að tefla fram framúrskarandi gæðum. Með því hugarfari munu ferðamenn alltaf hafa áhuga á að koma til okkar."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.