Verðmæti fjárfestingafélagsins Eyris Invest hefur vaxið að meðaltali á hlut um 54% á ári frá stofnun félagsins á miðju árinu 2000. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 38% í árslok 2007 og var komið í 43% í lok janúar 2008 að því er fram kemur í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2007.

Í skýrslunni kemur einnig fram að eignir félagsins hafa að jöfnu verið fjármagnaðar með eigin fé og langtímalánum. Stærsti hluti lánanna er þó til  fjögurra ára.

Heildar eignir Eyris Invest hafa vaxið verulega á milli ára og voru þær í árslok 2007 að verðmæti 48.204 milljónir króna samanborðið við 26.265 milljónir króna árslok 2006.

Mesta athygli í fjárfestingum Eyris hefur vakið sá sigur sem náðist í yfirtöku á Stork í Hollandi í gegnum eignarhaldsfélagið LME eftir gríðarlega harða og einbeitta baráttu. Tókst LME, sem var í eigu Eyris, Landsbanka og Marels, að knýja fram lausn eftir að hafa tryggt sér 43% hlut í Stork á haustdögum 2007.

Niðurstaðan varð yfirtaka á Stork í nafni London Acquisition sem er í eigu Eyris Invest (15%), Landbanka (10%) og Candover í Bretlandi (75%) í samvinnu við stjórnendur Stork. Hafði allur 43% hlutur LME í Stork þá verið seldur inn í þetta sameiginlega félag. Var öllum skilyrðum yfirtökutilboðs í nafni London Acquisition upp á um 1,7 milljarða evra fullnægt þann 17. janúar 2008.

Dreifð áhætta

Eyrir Investment hefur dreift fjárfestingum sínum með markvissum hætti til að minnka áhættu og leggur áherslu á að mikla eftirfylgni til að geta brugðist hratt við öllum breytingu á  markaði. Af fjárfestinum Eyris í margvíslegri starfsemi vega eignarhlutirnir í Marel og Stork Food Systems nú þyngst. Þar vógu fjárfestingarnar 37,8% af heildarfjárfestingum félagsins í árslok 2007 en var 33,6% árið 2006.

Næst mest vægi höfðu fjárfestingar í fjármálastarfsemi eða 22,5% en þær vógu 31,3% í árslok 2006. Í þriðja sæti voru fjárfestingar í heilsutengdri starfsemi þ.e. Össur eða 20,8% en þar var vægið 26,4% árið 2006. Í tækniþjónustugeiranum sem er tengdur olíu- og gasvinnslu í gegnum Stork var vægið 11,4% í árslok 2007 en var 3,3% í árslok 2006.

Fjárfestingar í flugvélaiðnaðargeiranum í gegnum Stork reka svo lestina sem hlutfall í heildafjárfestingum Eyris og vógu 7,5%  í árslok 2007, en voru 5,4% í árslok 2006.