Íslenska hátæknifyrirtækið VAXA Technologies ræktar smáþörunga til manneldis í jarðhitagarði ON á Hellisheiði. Fyrirtækið hefur hannað tækni sem kallast E 2 F, eða „Energy to Food" sem er sniðin að aðstæðum við Hellisheiðarvirkjun og skapar fullkomnar aðstæður fyrir smáþörunga.

VAXA Technologies mun á næstu mánuðum setja á markað átta til tíu vörur undir vörumerkinu ÖRLÖ. Fyrsta varan, ÖRLÖ Immunity Boost, kom á markað á dögunum en um er að ræða munnúða sem inniheldur UltraSpirulina Extract, sem framleidd er í verksmiðjunni á Hellisheiði, og D3, vatnsleysanlegt D-vítamín, og B-vítamín blöndu.

„Það er afar mikilvægt fyrir okkur sem búum á norðlægum slóðum að taka inn D-vítamín," segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA Technologies, og bætir við að markmiðið sé að hefja sölu vörunnar í Bandaríkjunum á næstu mánuðum.

Uppskera 7-10% af heildarlífmassa

„Þörungar eru frumframleiðendur. Þeir eru lífverur sem nýta orku úr ljósinu sem kemur frá sólinni og bindur vatn og koltvísýring í lífmassa og losa súrefni í leiðinni, þ.e. þeir ljóstillífa."

Hann bendir á að með kerfum VAXA Technologies fái smáþörungarnir orku frá LED ljósum í stað sólarljóss sem margfaldar framleiðsluhraða. „ Með lokuðu kerfi getum við stjórnað öllum aðstæðunum, magni ljóss, hitastigi, næringu og svo framvegis sem gerir okkur kleift að uppskera sjö til tíu prósent af heildarlífmassanum á hverjum einasta degi. Þessi lífmassi er fullur af próteinum, vítamínum, stein- og næringarefnum sem nýtist bæði í mat og sem fæðubótaefni.“

Megnið af allri þörungarækt í heiminum á sér stað í stórum opnum landbúnaðarkerfum og aðeins lítill hluti í lokuðum kerfum. „Það eru þrjú stór vandamál fólgin í ræktun þörunga í lokuðu kerfi. Í fyrsta lagi þarf að losa varmann sem myndast í kerfinu. Í öðru lagi þarf að koma koltvísýringi til þörunganna en venjulega nýtast aðeins um 5% af koltvísýringinum til lífmassaframleiðslu. Og í þriðja lagi þarf að hindra að þörungarnir myndi svokallaða líffilmu, því þá verður erfiðara fyrir ljósið að komast í kerfið og framleiðnin hrynur.“

Hann segir E 2 F kerfið hannað til að leysa þessi vandamál án umhverfisáhrifa og án þess að bæta við kostnaði á hverja framleidda einingu.

VAXA var stofnað árið 2017 en sumarið áður þáði ísraelski efnaverkfræðingurinn Isaac Berzin boð um að skoða aðstæður á Íslandi. Hann er þekktur í smáþörungaheiminum en hann var á lista tímaritsins Time árið 2007 yfir 100 áhrifamestu leiðtoga, hugsuði og vísindamenn samtímans. Í kjölfar heimsóknarinnar hönnuðu Isaac, ásamt hópi bandarískra vísindamanna, E 2 F tækni sína utan um aðstæðurnar sem bjóðast á Hellisheiði.

Fordæmalaus samningur

VAXA hefur gert bindandi langtímasamning sem er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. „Þetta er í fyrsta skipti sem fyrirtæki í smáþörungaiðnaði gerir langtímasamning við óskyldan þriðja aðila. Það er í raun verið að brjóta blað og hverfist allt utan um það að við erum tæknifyrirtæki í grunninn.“

VAXA lauk hlutafjárútboði í lok síðasta árs og safnaði 37 milljónum dollara. Helstu fjárfestar eru íslenskir með um 50% eignarhlut, þar á meðal Ísfélag Vestmannaeyja, KS, Stefnir, TM og fjöldi einstaklinga auk alþjóðlegra fjárfesta.

Félagið mun auka framleiðslugetu sína á næstu mánuðum með stækkun verksmiðjunnar á Hellisheiði. „Framleiðslugeta VAXA er nú 30 tonn af smáþörungum á ári. Verksmiðjan var nýlega stækkuð um þúsund fermetra, og í enda árs 2022 er áætlað að framleiðslugetan geti farið í 80- 100 tonn á ári.“ Hann segir að stefnt verði að því að tekjur VAXA Technologies verði orðnar 10-12 milljarðar á ári innan fimm ára, en tekjur ársins 2022 verða líklega um 400 milljónir. Auk þess stefnir fyrirtækið á skráningu á markað í kauphöll í New York innan tveggja ára og er því mikill vöxtur hjá félaginu um þessar mundir.

Nánar er fjallað um VAXA Technologies í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .