Vöxtur er í flestum tegunda verslunar. Á fyrstu fimm mánuðum ársins jókst velta dagvöruverslunar um 3,4% að raunvirði og áfengisverslunar um 3,8%. Velta í dagvöruverslun jókst um 3,8% á föstu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,2% á breytilegu verðlagi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 4,0% frá sama mánuði árið áður. Verð á dagvöru hækkaði um 0,4% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Fataverslun jókst um 11,5% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Verð á fötum var 0,4% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 12,6% í maí á föstu verðlagi og jókst um 16,3% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í maí um 3,3% frá maí í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 11,9% meiri í maí en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 11,6% á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 2,7% frá því í fyrra á föstu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn minnkaði um 5,6% á föstu verðlagi.

Verð á húsgögnum lækkaði um 0,3% í maí síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum í maí var 21,0% meiri á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 13,1%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 26,8% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 22,7% á milli ára