Enn er töluverður vöxtur í einkaneyslu samkvæmt tölum um greiðslukortanotkun landsmanna en Seðlabankinn birti nýlega tölur um notkun greiðslukorta og tékka í júní, segir greiningardeild Glitnis.

?Kemur þar fram að kortanotkun jókst frá fyrri mánuði um 4,5% og var aukningin svipuð hvort sem um er að ræða debet- eða kreditkort. Sé miðað við sama mánuð í fyrra er þó þróunin ólík milli þessara greiðslukortategunda. 12 mánaða aukning debetkortanotkunar var þannig 5,5% en aukning notkunar kreditkorta á sama tímabili hins vegar 23,5%," segir greiningardeildin.

Það er getur verið erfitt að túlka tölur um debetkortanotkun vegna færslu fyrirtækja, því gefa tölur um notkun kreditkortanotkun betri mynd af þróun einkaneyslu.

Heildarvelta kreditkorta

?Heildarvelta vegna kreditkorta var 22,7 milljarðar króna í júní. Af því voru 18,6 milljarðar króna vegna notkunar innanlands en 4,1 milljarðar króna vegna notkunar erlendis. Á föstu verðlagi nam aukning á innanlandsnotkun 12,5% frá sama mánuði í fyrra. Aukning erlendis var hins vegar nokkuð minni, sé miðað við fast gengi, eða 10,9% milli ára," segir greiningardeildin.

Raunaukning kreditkorta erlendis hefur minnkað. "Á seinni hluta síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs var aukning milli ára oftast á bilinu 30-50%. Kann það að vera vísbending um að landsmenn fari sér nú hægar en áður í neyslu í utanlandsferðum sínum," segir greiningardeildin.

Kreditkortavelta og einkaneysla

Greiningardeildin segir sterkt samband er milli raunþróunar kreditkortaveltu og einkaneyslu. ?Einföld aðhvarfsgreining þar sem stuðst er við ársfjórðungsgögn frá 2002-2006 gefur þá niðurstöðu að raunbreyting einkaneyslu milli ára samsvari u.þ.b. tveimur þriðju raunbreytingar kreditkortanotkunar á sama tímabili."

Það má reikna með að raunvöxtur einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi hafi verið um 10% frá sama tímabili í fyrra. ?Við gerum svo ráð fyrir að mjög dragi úr aukningu einkaneyslu á seinni hluta ársins, og á næsta ári er líklegt að hún dragist nokkuð saman," segir greiningardeildin.