Fjárfesting á síðasta ári minnkaði eftir því sem leið á og á fyrsta ársfjórðungi í ár dróst hún saman um 4,1% milli fjórðunga og um tæp 20% milli ára. Peningastefnunefnd gerir ráð fyrir því að fjárfesting dragist saman um 9,5% í ár sem skýrist af stærstum hluta af samdrætti fjárfestingar í skipum og flugvélum.

Á móti þeim samdrætti vegur mest aukning íbúðafjárfestingar en búist er við svipuðum vexti og í maíspánni en þá var spáð 28,5% vexti í ár. Fjárfesting í íbúðahúsnæði hefur aukist jafnt og þétt frá því að hún náði lágmarki árið 2010. Í fyrra jókst íbúðarfjárfesting um tæp 7%.

Á næsta ári er spáð 13% vexti í fjárfestingu og þar leggjast á sömu sveif stóriðjutengd fjárfesting, íbúðafjárfesting og atvinnuvegafjárfesting utan stóriðju, skipa og flugvéla. Árið 2015 er spáð enn frekari vexti og þar munar mestu um mikla aukningu stóriðjufjárfestingar auk þess sem önnur atvinnuvegafjárfesting og íbúðafjárfesting muni skila umtalsverðu framlagi til vaxtarins. Gangi spáin eftir verður hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu orðið tæplega 17% árið 2015, sem er lítillega undir því sem spáð var í maí og ríflega 3 prósentum undir meðaltali síðustu þrjátíu ára, að því er fram kemur í Peningamálum.

„Opinber fjárfesting samkvæmt fjárfestingaráætlun fráfarandi ríkisstjórnar fyrir árin 2013-2015 fór inn á fjárlög fyrir árið 2013 og var gert ráð fyrir að áætlunin yrði fjármögnuð með veiðigjöldum, arðgreiðslum og sölu eigna. Nú hefur ný ríkisstjórn ákveðið að lækka veiðigjöld og tilkynnt að hætt verði við nokkur fjárfestingarverkefni og að öðrum verði seinkað eða dregið úr framkvæmdahraða. Því er spá um vöxt fjárfestingar hins opinbera lækkuð frá fyrri spá,“ segir í Peningamálum. Í maíspánni var gert ráð fyrir 17,7% vexti í opinberri fjárfestingu á árinu en nú er gert ráð fyrir 8,5% vexti.