Vöxtur var hjá þremur af stærstu flugfélögum Evrópu í nóvember, sem er framhald af þróun frá því í sumar og kemur á sama tíma og hörð samkeppni ríkir um verð, segir greiningardeild Landsbankans.

?Vöxtur Air France-KLM, sem er stærsta flugfélag heims mælt í tekjum, var 4,1% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Vöxturinn er mældur út frá tekjum á flogna farþegakílómetra og var vöxtur á öllum sviðum. Vöxturinn á sama mælikvarða var 3,3% hjá SAS, sem segist engin merki sjá um að hægi á vexti,? segir greiningardeildin.

Hún segir að farþegum lágfargjaldaflugfélagsins easyJet hafi fjölgað um 11% í 2,6 milljónir á milli ára í nóvember, en FL Group átti sem kunnugt er 17% hlut í félaginu þar til í apríl á þessu ári. Farþegafjölgun hjá Ryanair var 15% og voru alls 3,2 milljónir í nóvember.

?Þennan vöxt var þó ekki að sjá hjá öllum flugfélögum, því farþegum fækkaði um 0,8% hjá British Airways þrátt fyrir að farþegum á fyrsta farrými og viðskiptafarrými hafi fjölgað um 3,7%.

Haft er eftir British Airways að veikur Bandaríkjadalur kunni að hafa dregið úr fjölda almennra farþega yfir Atlantshafið þar sem færri Bandaríkjamenn hafi ferðast til Evrópu.

Þess má geta að British Airways hóf áætlunarflug til Íslands í ágúst í fyrra, en þrátt fyrir góðan vöxt í flugi hér á landi er íslenski markaðurinn of lítill til að vega upp á móti fækkun á stærri mörkuðum. Farþegum sem flugu til eða frá Íslandi fjölgaði um 15,3% í nóvember og voru alls 134 þúsund,? segir greiningardeildin.