Ferðaþjónustufyrirtækið Atlantik sérhæfir sig í skipulagningu ferða fyrir farþega skemmtiferðaskipa sem hafa viðkomu á Íslandi. Fyrirtækið skipuleggur þó einnig svokallaðar hvataferðir fyrir erlend fyrirtæki, auk þess að skipuleggja ráðstefnur fyrir innlenda sem og erlenda hópa.

„Við erum tíu manna hópur sem vinnum í hvataferðum og svo erum við tvö sem erum að vinna hjá Íslandsmótum, sem er ráðstefnuhluti fyrirtækisins. Það er tilvalið fyrir fyrirtæki að fara í hvataferðir, enda er markmið þeirra að hrista starfsmannahópinn saman og byggja upp þétta liðsheild. Við höfum skipulagt hvataferðir fyrir erlenda hópa í rúmlega tvo áratugi og búum því yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði," segir Elísabet Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Atlantik.

Að hennar sögn samanstanda flestir hóparnir sem koma hingað til lands í hvataferð yfirleitt af um 50-100 manns.

„Oftast er um að ræða stór erlend fyrirtæki sem eru að gera vel við við hluta af starfsmannahópi sínum. Þau vilja koma til Íslands til að efla starfsandann með skemmtilegri ferð og það er okkar hlutverk að búa til dagskrá fyrir þessar ferðir. Við erum í samstarfi við mikinn fjölda af erlendum ferðaskrifstofum sem senda til okkar tilboðsbeiðnir og þegar við fáum inn slíkar beiðnir förum við beint í að setja upp dagskrá fyrir mögulega Íslandsferð. Þetta eru mjög skemmtileg verkefni og starfsmenn okkar fylgja hópunum eftir þegar þau koma til landsins í gegnum alla dagskránna."

Vöxtur milli 2018 og 2019

Líkt og Elísabet hefur komið inn á þá hefur Atlantik skipulagt hvataferðir í ríflega tvo áratugi. Spurð um hvort ferðirnar hafi tekið miklum breytingum í gegnum árin, segir Elísabet að þær hafi vissulega þróast mikið.

„Viðskiptavinahópurinn hefur í gegnum tíðina verið svipaður, sem sagt aðallega þessi stóru fyrirtæki, en framboðið á hinum ýmsu sviðum, t.d. sviði afþreyingar- og gistimöguleika, hefur aukist mikið á undanförnum árum. Við eigum í góðu samstarfi við marga aðila í þessum geira og það er sífellt að bætast við nýir aðilar sem bjóða upp á skemmtilegar nýjungar. Gróska ferðaþjónustunnar hér á landi hefur því stuðlað að aukinni fjölbreytni og þannig haft jákvæð áhrif á okkar starfsemi."

Að sögn Elísabetar hefur verið fínt skrið á sölu hvataferðanna undanfarið og til marks um það hafi fjöldi hvataferða sem Atlantik skipulagði aukist töluvert á milli áranna 2018 og 2019. „Hvað varðar árið 2020 erum við mjög bjartsýn - bókunarstaðan lítur vel út. Það stefnir allt í að fjöldi seldra ferða verði á pari við 2019, sem var mjög gott ár.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .