*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Innlent 7. apríl 2021 10:44

Vöxtur í innanlandsflugi

Farþegum Icelandair í innanlandsflugi fjölgaði um 52% á milli ára. Millilandaflug áfram í mýflugumynd vegna heimsfaraldursins.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair var um 7.800 í mars og dróst saman um 94% á milli ára. Fjöldi farþega til Íslands var um 4.300 og fjöldi farþega frá Íslandi um 3.300. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að heildar sætaframboð í millilandaflugi hafi dregist saman um 89% á milli ára. Sætanýting félagsins hafi verið 27,7% í marsmánuði samanborið við 61,9% í mars á síðasta ári. Undanfarna mánuði hafi félagið nýtt Boeing 767 vélar á ákveðnum leiðum í stað Boeing 757 véla í þeim tilgangi að auka fraktrými um borð sem leiði til lakari sætanýtingar.

„Fjöldi farþega Icelandair í innanlandflugi var um 16.000 í mars og fjölgaði farþegum um 52% á milli ára. Framboð í innanlandsflugi jókst um 36% á milli ára. Rétt er að geta þess að farþegar í flugi til og frá Grænlandi teljast nú með farþegum í millilandaflugi eftir að samþættingu Icelandair og Air Iceland Connect lauk um miðjan mars. Tölum fyrir síðasta ár hefur verið breytt til samræmis.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 30% á milli ára í mars. Aftur á móti jókst flutningastarfsemi félagsins um 36% á milli ára í marsmánuði og hefur nú aukist um 12% á milli ára það sem af er ári,“ segir í fréttatilkynningu.