Mikinn vöruskiptahalla það sem af er ári má að verulegu leyti útskýra með auknum innflutningi fjárfestingar- og rekstrarvara, og nokkrum samdrætti í öllum helstu flokkum útflutningsvara sem líklegt er að sé tímabundinn, segir greiningardeild Glitnis.

Í tölum Hagstofunnar um fyrsta fjórðung ársins, sem greiningardeildin vitnar í, kemur fram að magn innflutnings jókst um 22% frá sama tíma í fyrra en útflutningur vöru dróst saman um rúm 5% á sama tíma.

Verðþróun á erlendum mörkuðum olli því að verðmæti útflutnings jókst um tæplega 4% á tímabilinu, en verðmæti innflutnings óx að sama skapi hraðar, eða um 29%.

Sú aukning sem orðið hefur í fjárfestingarvöru, að skipum og flugvélum undanskildum, nemur 49% ef fyrsti ársfjórðungur er borinn saman við sama tímabil í fyrra.

?Fjárfesting tengd stóriðju er nú í hámarki, og einnig er mikill gangur í húsbyggingum hérlendis þessa dagana, bæði til íbúðar og atvinnustarfsemi," segir greiningardeild Glitnis.

Aukning í innflutningi rekstrarvara

Mikil aukning er einnig í innflutningi rekstrarvara. Hvað magn varðar sker innflutningur á hráefni til álframleiðslu sig úr með 79% aukningu milli ára, og er helsta skýring þess öflun hráefnis fyrir aukna álframleiðslu í verksmiðju Norðuráls á Grundartanga.

Það er enn sé mikill vöxtur (59%) í innflutningi á einkabifreiðum en engu að síður er farið að hægjast víða um í innfluttri neysluvöru.

?Til að mynda var magnaukning á fjórðungnum frá fyrra ári tæp 13% í varanlegum neysluvörum sem eru til dæmis heimilis- og raftæki, og rúm 12% í hálfvaranlegum neysluvörum á borð við fatnað. Á síðasta ári í heild jókst hins vegar innflutningur um tæp 36% á varanlegum neysluvörum og tæplega 21% í óvaranlegum," segir greiningardeildin.

Útflutningur sjávarafurða dregst saman

Samdráttur varð á fjórðungnum meðal helstu greina útflutnings, miðað við á sama tíma í fyrra.

?Til að mynda dróst magn útfluttra sjávarafurða saman um rúm 5%, og á mikill samdráttur í loðnuveiði þar töluverðan þátt, en útflutningur afurða hraðfrystingar jókst raunar lítillega. Rúmlega 8% samdráttur varð í útfluttu magni áls. Þar er um tímabundið ástand að ræða þar sem útflutningur áls mun aukast hröðum skrefum eftir því sem stækkun álversins á Grundartanga skilar auknu framleiðslumagni. Útflutningur annarra iðnaðarvara jókst svo um tæp 7% að magni til milli ára," segir greiningardeildin.

Verðþróun á alþjóðamörkuðum hefur verið hagstæð undanfarin misseri, jafnt á áli sem sjávarafurðum.

Líkur á að vöruskiptahalli minnki

?Allar líkur eru á að halli á vöruskiptum minnki verulega þegar líða tekur á árið, sér í lagi ef hægir á innflutningi neysluvara eftir öran vöxt síðustu ár. Á næsta ári mun svo enn draga úr vöruskiptahalla þegar álver og virkjun á Austurlandi verða fullbúin, auk þess sem líkur eru á að þá hægi á fjárfestingu í húsnæði," segir greiningardeildin.