Efnahagur í Japan óx meira á þriðja ársfjórðungi en spár höfðu gert ráð fyrir. Á fréttavef Bloomberg segir að almenn neysla hafi vegið upp minni veltu á húsnæðismarkaði.

Vöxturinn í Japan á þriðja ársfjórðungi var 2,6% en var 1,6% á öðrum ársfjórðungi en landið er annað stærsta efnahagskerfi í heimi.

Verulega hefur dregið úr fjárfestingum á japönskum húsnæðismarkaði og hafa þær ekki verið minni í áratug og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefur ekki verið lægri síðan í janúar 2006 en ástæða þess er sögð vera vaxandi áhyggjur af minnkandi útflutningi vegna minnkandi neyslu á heimsvísu. Þrátt fyrir þetta hélt Japansbanki stýrivöxtum óbreyttum 0,5% í dag.

Verðbólga í Kína hækkaði í október og er 6,5% í kjölfar hækkandi matvælaverðs. Hækkandi verðbólga hefur aukið þrýsting á seðlabanka landsins að hækka vexti í sjötta sinn á árinu. Verð á svínakjöti í Kína hefur hækkað um 55% frá því á sama tíma í fyrra.

Asíuvísitala Morgan Stanley Capital hækkaði um 0,1% á markaði í Tókýó í dag eftir að hafa lækkað þrjá undanfarna daga. Nikkei 225 vísitalan í Japan lækkað i aftur á móti um 0,5% í dag.