Fjarskipti hf., eða Vodafone á Íslandi, birti í gær uppgjör fjórða ársfjórðungs félagsins. Þar kemur fram að hagnaður síðasta árs nam 1.287 milljónum króna en það er 18% aukning frá árinu 2014. Tekjur félagsins á síðasta ári námu samtals 13,7 milljörðum króna en þær jukust um 4% frá fyrra ári. Frá opnun markaða í dag hefur gengi félagsins lækkað um 2,84% í 128 milljóna króna viðskiptum.

Mestar tekjur hafði félagið af farsímaþjónustu eða 4,7 milljarðar króna en þær drógust saman um 2% milli ára. Tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust um 5% og tekjur af internetþjónustu um 7% á sama tíma. Mest jukust tekjur í vörusölu eða um 31% á milli ára en þær telja um 12% af tekjum síðasta árs.

Samreksturinn skilar sér í lok árs

Í ársreikningnum kemur fram að samrekstur Vodafone með Nova hafi hafist undir lok árs og að væntingar séu um að rekstur félagsins muni leiða til aukins hagræðis. Að sögn Stefáns Sigurðssonar, forstjóra Vodafone, gerir félagið ráð fyrir að hagræðingin af samrekstrinum verði um 200 milljónir króna sem skiptist til helminga á milli fyrirtækjanna. „Við sjáum að hún komi að mestum þunga árið 2017 en að einhverju leyti í lok þessa árs.“

Fyrir ári síðan tilkynnti félagið um áform sín um að verða leiðandi í sjónvarpsþjónustu á Íslandi en eins og áður sagði jukust sjónvarpstekjur félagsins um 5% á árinu.

„Það eru komnir rúmlega 8.500 viðskiptavinir hjá okkur í Play og meðal mánaðarvöxtur þeirra er 12,3%,“ segir Stefán. „Við sjáum einnig vöxt í janúar þegar Netflix opnaði fyrir þjónustu sína hér á landi. Það er líka vöxtur í leigum í gegnum kerfin okkar. Það er jákvætt að við erum að sjá stöðuga aukningu í hverjum mánuði. Á sama tíma erum við að sjá skarpa aukningu í gagnamagni sem sýnir að það er greinilega einhver áhrif að koma frá Netflix á notkun á sviði internets.“