Þór Hilmarsson og Óðinn Löve stofnuðu fyrirtækið Vikingr fyrir skömmu, en það framleiðir og selur skeggvörur. Fyrirtækið hefur farið vel af stað á Íslandi og hyggst herja á erlenda markaði á næstu mánuðum. „Fyrirtækið var í rauninni stofnað vegna þess að skeggvöxtur er búinn að ráða ríkjum undanfarið og okkur fannst vanta vöru sem byggði á þessari skeggvaxtarþjóð sem víkingarnir eru. Það eru til alls konar vörur sem bendla sig við enska séntilmenn og gríska guði en það var ekkert gert nógu vel fyrir víkingana,“ segir Þór Hilmarsson, einn stofnenda Vikingrs.

Þór segir að ímynd víkinga sé þeim mjög hugfangin. „Við sáum að það voru einhverjar svona vörur úti í heimi sem voru eitthvað að kenna sig við víkinga. Ímyndin þar var eiginlega hallærisleg karlmennskuímynd eða ímynd sem virtist nánast vera meira tengd mótorhjólagengjum. Auk þess var engin vara frá Norðurlöndunum, þaðan sem víkingarnir eru, og engin vara sem innihélt íslensk eða norræn hráefni. Við ákváðum að hafa þetta tvennt að leiðarljósi, þennan sögulega anda víkinga og hráefni frá Norðurlöndunum.“

Skeggvörur í víking

Fyrirtækið er í útrás en það er komið á markað í Hollandi og er núna að herja á Norðurlöndin „Við erum byrjaðir að selja til Hollands í rakarastofukeðju, þetta er að fara mjög vel af stað þar. Við sendum fyrstu pakkninguna núna um miðjan september, það var bara svona smá- vegis til að byrja með. Strax vikuna eftir fengum við beiðni um tvöfalt magn og við erum farnir að senda töluvert meira í dag. Við erum líka með fleiri staði í Hollandi sem við erum að ná samningum við.“

Þór segir að hann hafi ekki haft mikla trú á að markaðssetning víkinga myndi virka á Norðurlöndunum. „Í fáfræði minni hafði ég ekki nægilega mikla trú að víkinga- þemað myndi virka á Norðurlöndunum. Ég taldi að því yrði bara tekið sem lélegri markaðsbrellu. Þegar ég fór að kynna mér þetta þá sá ég að ég hafði haft aldeilis rangt fyrir mér. Það var leitað til okkar frá Finnlandi þar sem það var áhugi fyrir að markaðssetja þetta. Við erum líka komnir á markað í Noregi og erum að vinna í Danmörku, en þetta er allt komið mislangt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .