Munaðarvöruframleiðandinn Richemont sagði í gær að spurn eftir dýrum úrum, skartgripum og öðrum munaðarvörum héldi áfram að aukast, bæði á nýjum mörkuðum og rótgrónum. Velta jókst til muna á reikningsárinu sem var að líða.

Sala jókst um 17% og nam 4,3 milljörðum evra, eða sem svarar til 404 milljörðum íslenskra króna á reikningsárinu sem laun 31. mars. Rekstrarhagnaður jókst um 47% og var 741 milljón evra, eða 70 milljarðar króna. Hagnaður vegna sölu á vörumerkinu Hacket og auknar leigutekjur voru meðal þess sem stuðluðu að þessum aukna rekstarhagnaði.

Hagnaður eftir skatta lækkaði hins vegar og nam 1,1 milljarði evra, eða 103 milljörðum króna, borið saman við 1,21 milljarð á árinu áður, þegar hagnaður vegna sölu á hlut í British American Tobacco hafði jákvæð áhrif á afkomuna. Þegar ekki er tekið tillit til óreglulegra liða hækkaði hagnaðurinn hins vegar um 26% og nam 1,13 milljörðum evra, eða 106 milljörðum króna.

Richemont sagði að eftirspurn á öllum mörkuðum félagsins hefði verið sterk á árinu. Mesti söluvöxturinn hefði verið í Ameríkuálfunum -- 21% á föstu gengi -- en sala jókst einnig um 15% í Japan og 14% í Evrópu og Suðaustur-Asíu.

Vöxtur hjá Cartier

Fyrirtækið sundurliðaði ekki frammistöðu dótturfyrirtækja, en sagði þó að rekstur Cartier hefði verið "sterkur" og að úrasala samstæðunnar hefði aukist um 22%, sem hefði orðið til þess að hagnaður hefði sýnt "sterkan vöxt".

Sala hjá Alfred Dunhill, leðurvörumerki Richemont sem hefur átt í örðugleikum að undanförnu, jókst um 8%. Sala jókst ekki í Evrópu og Japan, en á móti kom að hún jókst í Suðaustur-Asíu. Rekstarhagnaður deildarinnar jókst og nam 30 milljónum evra, eða 2,8 milljörðum króna.

Fyrirtækið sagði að eftirspurn hefði verið sterk á öllum markaðssvæðum á fyrstu tveimur mánuðum núverandi reikningsárs og sala aukist um 18%. "Við sjáum enn aukna spurn eftir vörum samstæðunnar á rótgrónum mörkuðum, sem og aukna vitneskju neytenda og spurn eftir munaðarvörum á nýjum mörkuðum," sagði Johann Rupert, stjórnarformaður Richemont.