Sætiskílómetrum hjá Icelandair fjölgar um 18% á næsta ári vegna aukinnar tíðni og nýrra áfangastaða. Þær Boeing 767-300 vélar sem bætast við flota félagsins á næsta ári verða meðal annars notaðar til að sameina ferðir til Amsterdam, sem eykur hagræði. Þetta er á meðal þess sem kom fram á fjárfestadegi Icelandair Group sem haldinn var í vikunni.

Icelandair hyggst á næstu árum kaupa fjölda Boeing 737 MAX flugvéla, sem eru minni en núverandi vélar félagsins, sem og stærri Boeing 767-300 vélar. Ný flotasamsetning Icelandair eykur möguleika þess á að grípa markaðstækifæri auk þess sem í henni felst ákveðin áhættuvörn gagnvart olíuverði. Þá eru Boeing 757 vélarnar sem félagið hefur lengi notað ekki lengur framleiddar.

Vöxturinn hefur verið arðbær

Vöxtur Icelandair á undanförnum árum hefur verið stöðugur og hraður. Árið 2010 bauð félagið upp á 130 flugtengingar, en á næsta ári verða þær 410.

Spurður um það hvort vöxtur félagsins sé áhættusamur segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group: „Nei, ég tel að hann sé ekki áhættusamur. Ég tel að við höfum sýnt það á undanförnum árum að vöxtur okkar hefur verið arðbær. Vissulega er í öllum rekstri áhætta, en í mínum huga er hún ekkert meiri í þessum rekstri en öðrum.

Það er einhver mýta um það að flugrekstur sé áhættusamari en annar, en auðvitað þarf fólk að ferðast,“ segir Björgólfur og bætir við að áhættan felist helst í samkeppni við önnur félög.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .