Peningamagn í umferð á evrusvæðinu jókst um 12,3% í október á ársgrundvelli og hefur vöxturinn aldrei verið meiri samkvæmt tölum sem Seðlabanki Evrópu birti í morgun. Frá þessu er greint í Morgunkorni Glitnis. Þar segir árrsvöxturinn milli mánaða er 11,3% og var töluvert meiri en búist var við, en samkvæmt könnun Reuters spáðu greiningaraðilar að meðaltali 11,5% vexti peningamagns frá fyrra ári í mánuðinum.

Mikill vöxtur peningamagns ýtir undir áhyggjur af versnandi verðbólguhorfum á evrusvæðinu, en peningamagn í umferð er einn þeirra mælikvarða sem Seðlabanki Evrópu notast við til að meta verðstöðugleika. Verðbólga á evrusvæðinu hefur aukist síðustu mánuði og var 2,6% í október á ársgrundvelli, sem er talsvert umfram verðbólguviðmið Seðlabanka Evrópu, en bankinn miðar við að halda verðbólgu sem næst en þó undir 2% á ársgrundvelli.  Mikill vöxtur peningamagns nú dregur úr líkum þess að bankinn lækki vexti sína í bráð, en stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 4,0%, segir í Morgunkorninu.

Umrót á fjármálamörkuðum ýtir undir vöxt peningamagns Mikill vöxtur peningamagns í umferð á evrusvæðinu kemur ekki á óvart í ljósi þess umróts sem einkennt hefur fjármálamarkaði að undanförnu. Seðlabanki Evrópu hefur dælt miklu fé inn í bankakerfið á haustmánuðum vegna þess lausafjárvanda sem á rætur að rekja til undirmálslána á bandarískum húsnæðismarkaði. Fjárfestar leita í öruggari og seljanlegri fjárfestingarkosti á tímum sem þessum sem sést einna best á aukinni eftirspurn eftir áhættuminni skuldabréfum að undanförnu og því að bankainnistæður sem bundnar eru til skemmri tíma hafa aukist hratt, segir í morgunkorni Glitnis.