Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að Ísland sé að sigla inn í eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið á lýðveldistímanum fyrir tilverknað ferðaþjónustunnar. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Hann segir áætlaða fjölgun ferðamanna um eina milljón á 5-6 árum vera sambærilega aukningu botnfiskveiða við útfærslu landhelginnar á áttunda áratugnum þegar hún var færð úr 12 sjómílum í 200 sjómílur í tveimur áföngum. Nú sé útlit fyrir að vinnuaflsþörf ferðaþjónustunnar verði mætt með innflutningi á erlendu vinnuafli og það geti lengt uppsveifluna verulega.

Samdráttur mældist í íslensku hagkerfi árin 2009 og 2010 í kjölfar efnahagshrunsins. Hagvöxtur mældist hins vegar 2,4% árið 2011, 1,3% árið 2012, 3,6% árið 2013 og 1,9% árið 2014. Þá spáir Seðlabankinn því að hagvöxtur á þessu ári nemi 4,2% og um 3% næstu tvö árin.

Ásgeir telur að ferðaþjónustan muni leiða þennan vöxt. Segir hann ljóst að vöxtur ferðaþjónustunnar hafi gert hana að leiðandi afli í efnahagslífinu hvort sem er á gjaldeyrismarkaði, vinnumarkaði eða húsnæðismarkaði, og hún sé að breyta efnahagsumhverfinu hraðar en margir geri sér grein fyrir.