*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 11. febrúar 2019 19:01

VR ekki áhuga á sveigjanleika

Framkvæmdastjóri Krónunnar vildi bjóða starfsfólki sveigjanlegri vinnutíma. Hún segir komu Costco hafa hjálpað.

Höskuldur Marselíusarson
Gréta María Grétarsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Krónunnar er af vestfirsku aflafólki komið, en hún ólst að hluta til upp á Flateyri.
Haraldur Guðjónsson

Gréta María Grétarsdóttir, sem nýlega tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar, segir félagið leggja mikið upp úr því að geta einfaldað líf viðskipta vina sinna, en hún segir það einnig vera markmiðið gagnvart starfsfólki félagsins. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í ítarlegu viðtali við Grétu segir hún fyrirtækið þora að taka af skarið, til dæmis í aukinni sjálfvirknivæðingu, en einnig í lausnum fyrir fólk að geta sótt matvörur í bensínstöðvar N1, sem keypti móðurfélag Krónunnar formlega á síðasta ári.

„Við erum með milli 350 og 400 stöðugildi hjá Krónunni, en í hverjum mánuði eru á milli 900 og 1000 manns sem vinna hjá okkur, þar sem við erum með marga sem taka bara nokkrar vaktir í mánuði,“ segir Gréta María sem viðurkennir að það sé of mikil starfsmannavelta hjá fyrirtækinu.

„Við erum fyrsti vinnuveitandi mjög margra og því hvílir á okkur mikil ábyrgð að þjálfa upp þetta unga fólk. Ég sé það sem eitt af stóru tækifærunum okkar að fá þetta fólk til að vera lengur hjá okkur, og erum við til dæmis að styðja við fólk sem kannski hefur ekki alltaf fengið sömu tækifæri og aðrir til að sækja nám með vinnu. Til dæmis er ný braut á Bifröst fyrir verslunarstjórnun, en það að vera verslunarstjóri er mikil ábyrgðarstaða, og erum við með dæmi um fólk sem unnið hefur sig upp úr því að byrja 15 ára í kerrum upp í verslunarstjórastöðu og jafnvel lengra.

Allir starfsmenn hjá okkur eru í VR svo við höfum eins og aðrir áhyggjur af verkföllum. Auðvitað viljum við að fólkið okkar sé á sanngjörnum launum, en alveg eins og við viljum einfalda líf viðskiptavina viljum við líka geta einfaldað líf starfsmanna, þá meina ég með sveigjanleika í vinnutíma. Við vitum það að fyrir fólk sem vinnur á skrifstofum er oft auðveldara að skjótast með börnin til tannlæknis, eða í eitthvað annað sem þarf að redda, en það er erfiðara fyrir fólk sem vinnur í verslunum.

Því vildum við til dæmis geta boðið fólki þann kost að byrja að vinna klukkan 12 og vinna þá lengur ef það hentaði fólki betur, enda mikið að gera í nútímafjölskyldum. Við fórum til VR og vildum gera tilraun til að bjóða upp á þetta, þar sem við hefðum hækkað launin hjá dagvinnufólki, gegn því að við myndum geta haft dagvinnutímann á breiðara bili. En það var ekki áhugi fyrir því hjá VR á þeim tíma.“

Vissu að verð væri hærra á Íslandi 

Gréta María segir að auðvitað hafi tilkomu Costco á íslenska markaðinn fylgt miklar breytingar. „Að fá inn nýjan aðila á markaðinn er alltaf jákvætt því það fær þig til að fara yfir hvað þú getur gert betur í þínum rekstri. Eins og þegar Costco kom inn þá byrjum við að fljúga inn berjum beint frá vesturströnd Bandaríkjanna, svo þau eru komin núna inn í búðina til okkar á fjórum dögum, þannig að þau endast mun lengur í ísskápnum hjá viðskiptavinum.

Einu sinni var það þannig að borða þurfti þau strax, því annars myndu þau skemmast. Annað sem breyttist við tilkomu Costco var að það lækkaði verð, því við fengum betri kjör frá okkar birgjum, og þeir gátu aftur notað það þegar þeir sömdu við sína framleiðendur erlendis. Áður var verðlag hérna bara hærra, framleiðendurnir vissu það og gátu þá fengið meira út úr því að selja hingað,“ segir Gréta María sem viðurkennir aðspurð að auðvitað sé Krónan að færa sig enn lengra en áður frá Costco viðskiptamódelinu. 

„Við sjáum það auðvitað úti í heimi að stórar verslanir eru að loka, eins og til dæmis Toys ´R´us, Jc. Penney´s og Sears, og fleiri sem eru í rekstrarvandræðum svo við erum ekki að fara að opna margar svona big box verslanir. Stærstu búðirnar hjá okkur eru á Granda, Lindum og Flatahrauni, en þær hafa samt ekki tapað mikið á tilkomu Costco, nema þá helst þær sem voru næst verslun Costco til að byrja með, en við höfum náð okkur vel á ný.“ 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.