*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 27. janúar 2021 18:33

VR fagnar afmæli á stofnstaðnum

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur var stofnað fyrir 130 árum í dag. Hátíðardagskrá send út 19:30 frá Árbæjarsafni.

Ritstjórn
Formaður VR mun halda ávarp á afmælisfögnuðu VR sem haldin er í sama húsi og félagið var stofnað.
Haraldur Guðjónsson

Í dag fagnar VR 130 ára afmæli en það var stofnað þann 27. janúar árið 1891 sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur á fundi í veitingahúsinu Hermes við Lækjargötu. Húsið stendur nú á Árbæjarsafni og mun félagið á þessum tímamótum því bjóða upp á hátíðardagskrá sem sýnd verður á vr.is og á visir.is kl. 19:30 í kvöld.

Sigmar Guðmundsson fær þar til sín fyrrum formenn VR einmitt í gamla Lækjargötuhúsið, þar sem félagið var stofnað á sínum tíma. Meðal dagskrárliða er að Vandræðaskáld munu flytja lag sem þau sömdu um VR og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, flytur ávarp. Stjórn VR verður svo með sérstakan stjórnarfund í húsinu kl. 18 í dag.

Á skemmunni má finna skemmtilega umfjöllun eftir Gylfa Dalmannn Aðalsteinsson um sögu félagsins, sem breytti um nafn árið 2006 í VR, sem stendur nú fyrir virðingu og réttlæti, eftir sameiningar við félög utan Reykjavíkur.

Jafnframt er fjallað um tilurð félagsins á vef VR þar sem sagt er frá afmælisfögnuðinum, en félagið var stofnað af 33 karlmönnum og fékk fysta konan ekki aðild fyrr en haustið 1900 og var lögum félagsins breytt í kjölfarið og það opnað fyrir konum.

Félagið var upphaflega stofnað sem menningar- og skemmtifélag til að efla samkennd meðal nýtilkominnar verslunartéttar í Reykjavík, og var það framan af bæði opið launþegum og atvinnurekendum í verslunarstétt, en það breyttist árið 1955.

Tæplega 10 árum áður hafði verið komið á fót launþegadeild innan félagsins, en grunnurinn að því að félagið breyttist í launþegafélag er rakinn til þess þegar 70 félagsmenn úr Verzlunarmannafélaginu Merkúr sem starfaði á árunum 1913 til 1934, gengu til liðs við VR.