Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa allir lækkað vexti sína í kjölfar ákvörðunar Seðlabankans um að lækka stýrivexti í byrjun nóvember. Einnig gripu þeir tækifærið og juku vaxtamuninn sem þýðir að innlán skila minni ávinningi og útlán lækka ekki jafnmikið og efni standa til. Afleiðingarnar eru þær að heimilin í landinu verða af hundruðum milljóna króna. Þetta segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, í pistli á vefsíðu félagsins .

Ólafía bendir á að innlánsvextir hafi lækkað um 0,3% stig hjá Arion banka en útlánsvextir aðeins um 0,2% stig. Hið sama sé upp á teningnum hjá Landsbankanum þar sem innlánsvextir hafi lækkað um 0,25% stig en útlánsvextir um aðeins 0,15% stig. Íslandsbanki hafi einnig lækkað vexti á innlánum um 0,3% stig og útlánsvexti um 0,25%. Þetta þýði að vaxtamunur aukist um 0,10% hjá Arion banka og Landsbankanum og 0,05% hjá Íslandsbanka.

Hún segir hagfræðing VR hafa reiknað út áhrifin af þessum breytingum og tekjur bankanna aukist um tæplega milljarð króna vegna þeirra. Seðlabankinn áætli að um þriðjungur inn- og útlána bankanna séu til heimilanna í landinu sem verði því af hundruðum milljóna króna.

Að lokum segir Ólafia: „Við hljótum að spyrja á hvaða forsendum bankarnir tóku þessa ákvörðun? Það er erfitt að sjá að það hafi verið í þágu okkar viðskiptavinanna. Fyrirheit um aukinn kaupmátt launafólks verða að engu þegar bankarnir geta með einu pennastriki tekið ávinning vaxtalækkana til sín á þennan hátt.“