Fulltrúaráð VR afturkallaði í kvöld umboð stjórnarmanna sinna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV). Nýir stjórnarmenn voru kjörnir til bráðabirgða.

Stjórn LV telur átta aðila. Fjórir eru tilnefndir af VR og Samtökum atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Félag atvinnurekenda, Viðskiptaráð Íslands og Kaupmannasamtök Íslands tilnefna saman fjóra.

Til fundar fulltrúaráðsins hafði verið boðað eftir að stjórn VR lýsti yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána. Hækkunin nam 0,2 prósentustigum.

„[Slíkt] gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi,“ segir í frétt á vef VR. Þar kemur fram að tuttugu fundarmenn hafi samþykkt tillöguna en að tveir hafi setið hjá. Tveir greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Úr stjórninni hverfa því Auður Árnadóttir, Ína Björk Hannesdóttir, Magnús Ragnar Guðmundsson og Ólafur Reimar Gunnarsson.

Í þeirra stað koma Bjarni Þór Sigurðsson, Guðríður Svana Bjarnadóttir, Helga Ingólfsdóttir og Stefán Sveinbjörnsson. Varamenn verða Björn Kristjánsson, Oddur Gunnar Jónsson, Selma Árnadóttir og Sigríður Lovísa Jónsdóttir.

FME hafði varað VR við því að ákvörðun sem þessi kynnu fela í sér brot gegn lögum um lífeyristryggingar og lífeyrissjóði.