VR kynnti á blaðamannafundi í dag það sem félagið kallar nýtt vopn til að uppræta launamun kynjanna og til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Með Jafnlaunavottun VR, sem ætluð er fyrirtækjum og stofnunum, gefst launagreiðendum nú tækifæri til að sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki körlum og konum. Jafnlaunavottunin var kynnt á fundi með blaða- og fréttamönnum í dag.

Í tilkynningu kemur fram að VR hefur unnið að þróun Jafnlaunavottunarinnar í tæp tvö ár, meðal annars í samstarfi við BSI á Íslandi (British Standards Institution) og byggir vottunin á nýjum jafnlaunastaðli sem Staðlaráð Íslands gaf út á síðasta ári.

Í tilkynningunni er haft eftir Stefáni Einari Stefánssyni, formanni VR, að stéttarfélögin hafi barist fyrir jöfnum launum karla og kvenna áratugum saman og þrátt fyrir marktækan árangur sé ennþá mikill munur á launum kynjanna. Samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2012 hafa konur í VR að meðaltali 14,9% lægri laun en karlar og þegar tekið hefur verið tillit til allra áhrifaþátta á launin er óútskýrður launamunur 9,4%. Þetta er óásættanlegt að mati Stefáns.

Kostnaður við úttektir mun fara eftir stærð fyrirtækja en í tilkynningunni segir að honum verði mjög stillt í hóf.