*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 12. mars 2019 13:45

VR samþykkir verkfall

Starfsmenn hópbifreiða- og gistiþjónustufyrirtækja samþykktu verkfall 22. mars með 52% atkvæða.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. Réttlætistilfinningu félagsmanna sé misboðið, en verkfallsátök séu grafalvarlegur hlutur.
Haraldur Guðjónsson

Starfsmenn hópbifreiða- og gistiþjónustufyrirtækja sem eru félagsmenn VR samþykktu verkfallsaðgerðir með 302 atkvæðum gegn 262 í rafrænni kosningu sem lauk nú í hádeginu. Þetta kemur fram á vef verkalýðsfélagsins.

Verkfallið – sem til stendur að hefjist 22. mars – nær aðeins til starfsmanna hópbifreiðafyrirtækja á félagssvæði VR, og starfsmanna í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði, og aðeins þeir sem verkfallið mun ná til höfðu atkvæðisrétt.

Á kjörskrá voru alls 959 félagsmenn, og 578 þeirra, um 60%, greiddu atkvæði. Sem fyrr segir kusu 302 félagsmenn, 52% þeirra sem greiddu atkvæði, með verkfallinu, en 262, 45% atkvæða, voru mótfallin. 14 atkvæði, 2,4%, tóku ekki afstöðu.