Í launakönnun VR kemur fram að heildarlaun félagsmanna hækkuðu um 4,5% frá janúar 2010 til janúar 2011 og grunnlaun hækkuðu um 4,2% á sama tíma. Breytingar á launum í könnuninni eru í samræmi við þróun launavísitölu Hagstofunnar sem hækkaði um 4,4% á sama tímabili. Könnunin leiðir hins vegar í ljós að launamunur kynjanna er óbreyttur á milli ára, konur eru með 15,3% lægri heildarlaun en karlar og kynbundinn launamunur, það er launamunur sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði, er 10,6%.

Í ályktun stjórnar VR er bent á að kynbundinn launamunur er brot á mannréttindum sem hefur mikil og varanleg áhrif á hag heimilanna og framtíða barna okkar. Stjórnin skorar á fyrirtækin í landinu að taka virkan þátt í jafnréttisbaráttunni og greiða konum og körlum sömu laun fyrir sömu vinnu.

Á árunum 2001 til 2009 náðist marktækur árangur við að minnka kynbundinn launamun karla og kvenna innan VR en þá lækkaði hann úr 13,8% árið 2001 í 10,1% árið 2009. Síðustu þrjú árin hefur kynbundinn launamunur hins vegar haldist nánast óbreyttur í kringum 10%.

„Við hjá VR getum ekki sætt okkur við þetta ástand og munum halda áfram að berjast gegn misréttinu sem felst í að launagreiðendur líti á konur sem 90% menn þegar kemur að launum. Til að ná árangri þarf hins vegar sameiginlegt átak og viðhorfsbreytingu í samfélaginu og því förum við af stað með þessa herferð. Við skorum jafnframt á viðsemjendur okkar í fyrirtækjum og stofnunum að taka þátt í þessu átaki með okkur og útrýma kynbundnum launamun, “ segir Stefán Einar Stefánsson formaður VR.

Samkvæmt könnuninni voru heildarlaun félagsmanna VR að meðaltali 441 þúsund krónur á mánuði í janúar 2011 sem er 4,5% hærra en á sama tíma árið 2010. Grunnlaun voru rúmlega 411 þúsund krónur sem er 4,2% hærra en árið áður. Á sama tíma hækkuðu laun samkvæmt kjarasamningi VR og SA um 2,5% þannig að heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu að meðaltali um 2 prósentustig umfram kjarasamninga á þessu tímabili og grunnlaun um 1,7 prósentustig.

Breytingar á meðallaunum einstakra starfsstétta voru mjög mismunandi frá janúar 2010 til janúar 2011. Öryggisverðir og starfsfólk í ræstingu hækkuðu mest einstakra starfsstétta í grunnlaunum eða um 18,3% á meðan heildarlaun þeirra hækkuðu um 10,3%. Laun sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu hins vegar minnst. Almennt hækkaði þessi hópur um 1,8% í grunnlaunum og 2,9% í heildarlaunum.

Staða sölufulltrúa og starfsfólks í sérhæfðri sölu er töluvert betri en en almenns afgreiðslufólks sem sá laun sín yfirleitt lækka á milli ára. Niðurstöður launakönnunarinnar benda til að þessi hópur hafi ekki haldið í við aðra félagsmenn VR í launaþróun og er það mikið áhyggjuefni. Hins vegar ber að geta þess að þessi hópur fékk sérstaka launahækkun í kjarasamningum sem gerður voru í maí síðast liðnum. Sú hækkun er ekki inn í niðurstöðum launakönnunar VR, sem miða við laun í janúar.

Miklar sveiflur eru í launaþróun eftir atvinnugreinum en heildarlaun í iðnaði hækkuðu um 3,5% á meðan heildarlaun starfsmanna í verslunum og þjónustufyrirtækjum hækkuðu almennt um 1,6%. Þar af standa stórmarkaðir og matvöruverslanir sínu verst en þar lækkuðu grunnlaun starfsmanna um 0,8% frá janúar 2010 til janúar 2011 og heildarlaun hækkuðu um 0,8% á sama tíma. Hjá heildsölufyritækjum hækkuðu heildarlaun um 4,8% og hjá fyrirtækjum í flutningum og ferðaþjónustu hækkuðu heildarlaun um 5,3%. Fjármála-, tölvufyrirtæki og sérhæfð þjónustufyrirtæki hækkuðu einnig meira en meðaltalið segir til um en grunnlaun hjá þessum fyrirtækjum hækkuðu um 5,6% og heildarlaun um 5,9% frá janúar 2010 til janúar 2011.

Samanburður á meðaltali heildarlauna 5% launahæstu félagsmanna og á heildarlaunum 5% launalægstu félagsmanna VR leiðir í ljós að munur á hæstu og lægstu launum hefur dregist mikið saman á milli ára. Samkvæmt könnuninni eru þeir launahæstu að meðaltali með 750 þúsund krónur í laun á mánuði á meðan þeir launalægstu eru með 250 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Þeir sem hafa hæstu launin voru því með þrefalt hærri laun í janúar 2011 en þeir sem eru með lægstu launin. Árið 2010 var munurinn hins vegar fjórfaldur. Þá voru meðallaun þeirra 5% sem höfðu hæstu launin 874 þúsund krónur á mánuði en meðaltal lægstu launanna var 217 þúsund krónur á mánuði.