VR og Landssamband íslenskra verslunarmanna vilja langtímasamning í komandi kjaraviðræðum, en útilokar ekki möguleika á stuttum kjarasamningi. Þetta kemur fram í kröfugerð trúnaðarráðs VR sem samþykkt var í gærkvöldi.

„Það er afstaða VR og LÍV að heppilegra sé að semja til lengri tíma en það eykur líkur á árangri í baráttunni fyrir stöðugleika og auknum kaupmætti á vinnumarkaði. En þar sem óvissa ríkir í þróun efnahagsmála og hvað aðgerðir stjórnvalda í ríkisfjármálum varðar telja félögin rétt að skoða möguleika á stuttum kjarasamningi,“ segir í kröfugerðinni.

Þá segir að VR og LÍV leggi mikla áherslu á við gerð nýs kjarasamnings að skapaður verði grunnur að efnahagslegum stöðugleika og unnið verði markvisst að því að auka kaupmátt launafólks.