Ákveðið hefur verið að sameina VST, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. og Rafteikningu hf. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð fyrr í dag og í framhaldi af því boðað til starfsmannafunda þar sem fyrirhuguð sameining var kynnt.

Í tilkynningu kemur fram að með nýju og sameinuðu félagi, er stefnt að öflugri rekstri, ekki hvað síst með hliðsjón af auknum möguleikum á verkefnaöflun erlendis. Báðar stofur eru reknar sem hlutafélög, þar sem einungis fastráðnir starfsmenn geta orðið hluthafar og verður nýja félagið rekið á sama grunni. Það verður með höfuðstöðvar í Reykjavík og sjö útibú hringinn í kringum landið eða á Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi og í Reykjanesbæ.

Gert er ráð fyrir að nýju verkfræðistofunni verði formlega hleypt af stokkunum um miðbik ársins eða um leið og tilskilin leyfi hafa verið veitt, en hún verður með þeim stærstu hér á landi með um 240 starfsmenn. Þar af koma um 170 manns frá VST og um 70 frá Rafteikningu.

VST og Rafteikning eiga langan og farsælan feril að baki. VST hefur starfað frá árinu 1932, sem gerir hana að elstu verkfræðistofu landsins og Rafteikning frá árinu 1965. Þá hafa stofurnar starfað saman um langt skeið að verkefnum í mannvirkjagerð hér á landi eða allt frá Kröflu að Kárahnjúkum.