Vyto Kab, sem lét af störfum hjá Flögu Group þann 5. apríl sl. hefur sagt sig úr stjórn félagsins. Að sögn Boga Pálssonar, starfandi stjórnarformanns Flögu, er þetta í samræmi við þær áætlanir sem lágu fyrir þegar Flaga keypti SleepTech LLC í maí á síðasta ár af Vyto og Patriciu Kab. Þá var samið um að þau hjónin tengdust félaginu áfram. Bogi sagði að í raun hefði afhendingartíminn (hand over) gengið betur en gert var ráð fyrir og því hefðu þau hjón getað farið fyrr en gert var ráð fyrir.

Medcare Flaga hf. keypti bandaríska fyrirtækið SleepTech LLC í maí á síðasta ári. Fyrirtækið sérhæfir sig í rekstri svefnmælingastofa fyrir sjúkrahús. Kaupverðið nemur allt að 26,5 milljónum bandaríkjadala eða um 2 milljörðum króna. Rekstur SleepTech hafði gengið vel síðustu ár, árlegur vöxtur verið yfir 35% og félagið skilað góðum hagnaði. Velta félagsins nam tæpum helmingi af veltu Medcare Flögu árið 2003 og eftir yfirtökuna var gert ráð fyrir að um 70% af tekjum Medcare Flögu yrðu í Bandaríkjunum.

SleepTech var stofnað árið 1993 af Vyto og Patriciu Kab. Það er sérhæft í rekstri svefnmælingastofa fyrir sjúkrahús í New York og nærliggjandi ríkjum og rekur nú svefnmælingastofur fyrir 18 sjúkrahús. Félagið byggir rekstur sinn á langtímasamingum við sjúkrahús sem gerir veltu þess og fjármunamyndun bæði stöðuga og fyrirsjáanlega. SleepTech er stærsti einstaki aðilinn á sínu sviði á New York svæðinu en hjá félaginu, sem er með aðsetur í Kinnelon, New Jersey, starfa um 80 manns.

Rekstur SleepTech hafði gengið vel þegar Flaga keypti það og var velta félagsins á árinu 2003 rúmar 8,5 milljónir dala, EBITDA framlegð þess var rúmar 2,6 milljónir dala (31%) og hagnaður 2,3 milljónir dala. Innri vöxtur félagsins hefur verið á bilinu 35%-38% á ári síðustu ár og er áfram reiknað með miklum vexti. Áætluð velta SleepTech á árinu 2004 er um 11 milljónir dala og EBITDA framlegð 31%. Félagið var skuldlaust við yfirtökuna.

Kaupin eru í samræmi við þá stefnu Medcare Flögu að ná til stærri hluta svefnrannsóknamarkaðarins