Nafn hins nýja íslensks lággjaldaflugfélags er Play og einkennislitur félagsins er rauður. „Við erum íslenskt félag, með höfuðstöðvar á Íslandi og munum ráða starfsfólk á íslenskum samningum,“ sagði Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, á blaðamannafundi rétt í þessu.

„Liturinn táknar bæði ástríðuna sem liggur að baki félaginu og vísar líka til eldfjallaeyjunnar Íslands,“ sagði Arnar Már sem segir félagið vera á lokametrunum með að fá flugrekstrarleyfi, bókunarvélin væri klár og heimasíðan kæmi í loftið von bráðar.

Arnar Már sagði félagið ætla að leggja áherslu á einfaldleika og þannig tryggja að hagstætt verð frá fyrsta degi. Hann sagði jafnframt að félagið ætli að gefa eitt þúsund flugmiða á vefsíðu sinni. Nú þegar sé hægt að skrá sig á vefsíðu félagsins flyplay.com .

Arnar Már er forstjóri Play eins og áður sagði. Sveinn Ingi Steinþórsson er fjármálastjóri félagsins. Auk þeirra eru Þóroddr Ari Þóroddsson og Bogi Guðmundsson einnig meðal stofnenda Play.

Arnar már og Sveinn Ingi voru lykilstarfsmenn í Wow; Sveinn Ingi var yfirmaður hagdeildar Wow og sat í fram­kvæmda­stjórn fé­lags­ins og Arnar Már Magnússon var framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs.

Félagið mun fljúga Airbus A320. „Þessar vél henta ákaflega vel aðstæðum eins og þær eru hér á landi. Þær eru mjög sparneytnar og flugdrægni passar okkur vel,“ segir Arnar Már og bætir við að til að byrja með muni félagið leigja tvær slíkar vélar en með vorinu sé stefnan að fjölga vélunum upp í sex.

Arnar Már segir flugáætlun félagsins ekki vera fullmótaða en liggi þó fyrir í stórum dráttum. Markmiðið er að tengja Norður Ameríku og Norður Evrópu. Til að byrja með yrði flogið til sex áfangastaða í Evrópu, helstu borga álfunnar og svo hugsanlega til sólarstaða. Næsta vor er fyrirhugað að hefja flug til Norður Ameríkju. Innan þriggja ára stefna stjórnendur félagsins á að flotinn telji 10 vélar.

Arnar segir fjármögnun félagsins vera lokið. Áhersla sé á fjármögnun til lengri tíma og það hafi tekist í samvinnu við breskan fagfjárfestasjóð. Þá hafi félagið Íslensk verðbréf komið að fjármögnunni, en 80% hennar komi erlendis frá og 20% innanlands.