Sala bandarísku verslunarkeðjunnar Wal-Mart í janúar var nokkuð betri en menn höfðu þorað að vona og jókst um 2,1% en greiningaraðilar á Wall Street höfðu gert ráð fyrir 1,1% aukning sölu, og þá var búið að gera ráð fyrir útsölum.

Að sögn greiningaraðila á vegum Reuters fréttastofunnar er eftirspurn eftir matvörum en þannig virðist fólk fara minna út að borða en áður, en ekki er óalgengt að fjölskylda með meðaltekju fari nokkrum sinnum út að borða í hverri viku vestanhafs.

Á sama tíma og Wal-Mart birtir tölur sínar sem sýna söluaukningu birtir einn helsti samkeppnisaðilinn, Costco tölur sem sýna 2% samdrátt í sölu milli ára. Þá hafa fleiri verslunarkeðjur ýmist staðið í stað eða horfa fram á minni sölu.