Wall Street Journal fjallaði í gær um áhrif fjármálakreppunnar á jeppadellu Íslendinga.

Í grein blaðsins segir að margra ára uppsveifla í efnahagslífi landsins og arfleið amerískra neytendavenja hafi gert risavaxna jeppa að uppáhaldsleikföngum þúsunda Íslendinga. Nú sé gamanið hins vegar að kárna, hækkandi afborganir, hækkandi eldsneytisverð og lækkandi gjaldmiðill sé að drepa niður góða skemmtun.

Wall Street Journal segir einnig frá því að vöxtur í hagkerfi Íslands frá tíunda áratug síðustu aldar hafi gert það að einu af ríkustu löndum heims miðað við íbúafjölda.

Í dag séu íbúar landsins hins vegar skuldugir og að kostnaður við að framfleyta sér í landinu sé hár og að hækka. Krónan hafi fallið um 27% gagnvart Bandaríkjadal síðan í nóvember, sem sé býsna mikið, sérstaklega ef tekið er með í reikninginn að dalurinn hefur einnig lækkað. Þetta hafi þau áhrif að amerískir ferðamenn líti hýru auga til landsins, en á sama tíma sé þetta fjötur um fót þeirra Íslendinga sem tóku lán í erlendum gjaldmiðli til að fjármagna bílakaup.

Í greininni er haft eftir Emil Grímssyni, stjórnarformanni Arctic Trucks, að sala þeirra sé nú 2-4 bílar á viku, samanborið við 10-20 á viku í janúar. Sagt er frá mótmælum jeppaeigenda vegna hækkandi olíuverðs og að Íslendingar taki skemmtun sína greinilega alvarlega.

Þráinn Bertelsson er einn af viðmælendum blaðsins. „Áður fyrr trúðu Íslendingar á ósýnilegt fólk, huldufólk. Nú trúa Íslendingar á peningatöframenn, sem láta peninga birtast upp úr engu,“ segir Þráinn um þá tilhneigingu Íslendinga að kaupa hluti á lánum.