Dagblaðið Wall Street Journal opinberaði í vikunni gerbreytt útlit og stefnu blaðsins. Í fréttatilkynningu þess segir að með breytingunum sé ætlunin að koma til móts við kröfur lesenda með neytendavænna blaði sem bæti við fréttir sem lesendur geti nálgast hjá sífjölgandi upplýsingauppsprettum. Nýja blaðinu verður dreift ókeypis þann 2. janúar á næsta ári, netútgáfa blaðsins verður einnig aðgengileg án endurgjalds, en Wall Street Journal Online er stærsta áskriftarblaðið á netinu.

Í nýja blaðinu verður lögð meiri áhersla á túlkun, skilning og álit, þannig verður lögð meiri áhersla á hvaða þýðingu fréttir hafa, ekki bara á hvað gerðist.

L. Gordon Crovitz, varaforseti Dow Jones & Company og útgefandi Wall Street Journal, segir að blaðið sé það fyrsta sem sé endurhugsað út frá þörfum nútímalesendans. Crovitz segir að nýja blaðið fari langt út fyrir það að greina frá atburðum gærdagsins, mun meiri áhersla verði lögð á hvað atburðirnir þýða. Hann segir einnig að með breytingu á uppsetningu og aukinni samþættingu net- og prentmiðla verði blaðið jafnvel enn mikilvægara.

Hann segir að þó verði haldið áfram bjóða upp á það efni sem Wall Street Journal hefur áður verið með, en í stað þess að um helmingur af efni blaðsins greini einfaldlega frá atburðum gærdagsins, verði hlutfallið í nýja blaðinu 20% fréttir og 80% verði sérstakar fréttaskýringar blaðsins.