*

mánudagur, 8. mars 2021
Erlent 24. janúar 2021 15:09

Wallstreetbets keyrir upp bréf Gamestop

Meðlimir spjallborðsins r/wallstreetbets á Reddit keyptu bréfin í milljarðavís til að klekkja á skortsala.

Júlíus Þór Halldórsson
Tölvuleikja- og raftækjaverslunarkeðjan Gamestop rekur á sjötta þúsund verslanir víðsvegar um heiminn.
epa

Hlutabréf í bandarísku tölvuleikja- og raftækjaverslunarkeðjunni Gamestop ruku upp um allt að 80% á föstudag þegar almennir fjárfestar tókust á við skortsala. Ítrekað þurfti að stöðva viðskipti með bréfin vegna gríðarlegs flökts.

Bréfin – sem hófu árið í 18,84 dölum á hlut – fóru yfir 76 dali á hlut innan dags á föstudag, ríflega fimmföldun frá ársbyrjun, og um tuttuguföldun frá síðasta sumri.

Bréfin tvöfölduðust þrátt fyrir 31% tekjufall
Keðjan rekur yfir 5 þúsund verslanir í Norður-Ameríku, Evrópu og Eyjaálfu, en hefur eins og flestar staðbundnar verslanir átt erfitt uppdráttar í heimsfaraldrinum. Félagið greindi frá því í síðasta mánuði að sölutekjur hafi fallið um 31% milli ára á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs.

Almennir fjárfestar á spjallborðinu r/wallstreetbets á spjallsíðunni Reddit hafa hinsvegar tekið nokkru ástfóstri við bréfin, sem tvöfölduðust í verði á aðeins tveimur dögum milli 12. og 14. janúar. Slíkir fjárfestar kaupa gjarnan kauprétti á þeim bréfum sem þeir vilja taka stöðu með, en þegar viðskiptavakar selja kauprétti kaupa þeir gjarnan undirliggjandi bréf á móti, til að verja stöðu sína. Þetta hefur ýtt enn frekar undir hækkanir bréfanna.

Tóku skortstöðunni sem stríðsyfirlýsingu
Skortsalinn Citron Research gaf síðan út nú á fimmtudag að hann hefði tekið skortstöðu í félaginu – veðjað gegn bréfum þess – sem hann taldi ekki myndu ná sér á strik aftur eftir erfitt ár.

Þessu tóku meðlimir r/wallstreetbets illa, og við tók nokkurskonar reipitog, eins og Financial Times kemst að orði. Saman keyptu þeir bréf og kauprétti í massavís, og settu raunar nýtt met í þeim efnum samkvæmt fréttaveitunni Bloomberg, þegar hlutabréfaveltan náði 8 milljörðum dala fyrir klukkan 2.

Við tók fyrirbæri sem kallað er short squeeze: þar sem skortsalar – sem fengið hafa hlutabréf að láni og selt þau – keppast í óðagoti við að kaupa bréfin sem fyrst, til að þurfa ekki að kaupa þau enn dýrara verði þegar kemur að skuldadögum.

Citron og stofnandi þess Andrew Left þurftu því að lúta í lægra haldi, og bréfin stóðu í 65 dölum við lok viðskipta fyrir helgi. Þau hafa aldrei í næstum tveggja áratuga sögu félagsins á markaði verið svo dýr, en mest náðu þau rúmlega 60 dölum í desember 2007.

Stikkorð: Reddit Gamestop wallstreetbets