Bandaríski verslunarrisinn Walmart hefur fallið frá áformum um að vélmenni taki við af mannfólki við að skanna vörur í hillum til að halda utan um birgðatalningu. Walmart hefur haft það að markmiði um nokkurra ára skeið að vélmennavæða fyrrnefnda ferla. Reuters greinir frá.

Walmart hefur greint frá því að bundinn hafi verið endi á fimm ára samstarf við fyrirtækið Bossa Nova Robotics Inc, en markmið samstarfsins var að auka ánægju viðskiptavina með því að nota vélmenni til að aðstoða starfsfólk í verslunum og létta þeim lífið.

Verslunarrisinn hyggst halda áfram að prófa nýjar lausnir til að halda utan um birgðastöðu þannig að hægt sé að fylla á tómar hillur eins fljótt og auðið er.