*

laugardagur, 5. desember 2020
Erlent 11. september 2020 08:15

Walmart hefur drónasendingar

Í litlum bæ í Norður-Karólínufylki verður nú hægt að fá vörur heimsendar frá Walmart með flygildi (e. drone).

Ritstjórn
Walmart er stærsta fyrirtæki heims bæði eftir veltu og starfsmannafjölda. Tekjur þess námu yfir 500 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra, og hjá því starfa um 2,2 milljónir manns.
epa

Bandaríski verslunarrisinn Walmart hefur hafið prufanir á heimsendingum til viðskiptavina með flygildum (e. drone), sem geta borið 3 kílógramma pakka og flogið 10 kílómetra samanlagt (með heimferðinni), á allt að 50 kílómetra hraða á klukkustund.

Í stað þess að lenda með vörurnar láta flygildin þær siga á jörðu niður úr um 24 metra hæð. Tækin sjálf eru rekin af ísraelska sprotafyrirtækinu Flytrex, sem fékk á síðasta ári leyfi frá flugmálayfirvöldum til að prufa tæknina í Norður-Karólínufylki, en prófanirnar standa nú yfir þar, í bænum Fayetteville.

Verslunarrisinn hefur lagt mikið upp úr flygildatækninni, og hóf prufanir innan fyrirtækisins fyrir 5 árum síðan. Prufanir á sendingum til viðskiptavina marka þó mikil tímamót samkvæmt umfjöllun The Verge um málið, en öryggis- og kostnaðarsjónarmið hafa lengi staðið í vegi fyrir framþróun og almennari notkun tækninnar í þessum tilgangi.

Stikkorð: Walmart