Walmart hyggst taka höndum saman með Microsoft í mögulegum kaupum á samfélagsmiðlinum TikTok. Áhugi smásalans á TikTok virðist vera merki um að félagið ætli að auka umfang stafræns reksturs síns. Financial Times segir frá .

Í tilkynningu Walmart sagðist félagið vera öruggt um að sameiginlegt kauptilboð með Microsoft myndi þóknast ríkisstjórn Donald Trump. Bandaríkjaforsetinn hefur sagt smáforritið ógna þjóðaröryggi og gaf ByteDance, móðurfélagi TikTok, 90 daga til að selja bandaríska hluta samfélagsmiðilsins.

Kaupin á TikTok gætu gefið Walmart betra færi á að ná til ungs markaðshóps ásamt því að sækja í verðmæt gögn um hegðun neytenda á netinu.

Fréttirnar komu einungis klukkutímum eftir að Kevin Mayer, forstjóri TikTok, lét af störfum eftir einungis þriggja mánaða starf . Mayer gaf til kynna í bréfi til starfsmanna að ákvörðunin tengdist afskiptum Trump á fyrirtækinu.