Miklar sviptingar hafa verið á hlutabréfaverði Walmart síðan fréttir fóru að berast af því að bandaríski verslunarrisinn ætlaði sér að taka yfir rekstur kínverska samfélagsmiðilsins TikTok þar í landi. Þær fréttir hafa þó skyggt á tilkomu nýrrar áskriftarþjónustu fyrir netverslun sem sett hefur verið upp til höfuðs Amazon sem Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun síðasta mánaðar.

Fréttir um yfirtökuna komu eftir hótanir bandarískra stjórnvalda um að banna miðilinn en á endanum varð ekki af því að Walmart og Microsoft tækju það yfir sem leiddi til þess að hlutabréfaverð Walmart reis og hneig skart við fréttirnar.

Þannig hækkaði hlutabréfaverðið um ríflega 8% í kjölfar frétta um aðkomu Walmart að TikTok, en lækkaði þegar mest var um 8,40% á ný, þó verðið hafi hækkað aftur og er það nú 4,7% hærra en þegar tilkynnt var um TikTok viðskiptin.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá gengu áætlanir svo ekki eftir heldur náði bandaríska fyrirtækið Oracle samkomulagi um að sjá um reksturinn þó enn sé ekki útséð um hvort það dugi til að svara þjóðaröryggiskröfum Bandaríkjanna vegna gagnaflutninga til Kína þar sem kommúnistastjórn ræður ríkjum.

Nýja áskriftarþjónustan fyrir netverslun Walmart sem hóf göngu sína um miðjan september virðist vera sett upp fyrst og fremst til höfuðs netrisanum Amazon, en hún er ódýrari en þjónusta hans, en býður jafnframt ekki upp á sömu þjónustu, til að mynda er engin skýjaþjónusta eða streymisveita í henni.

Bjartsýnir þrátt fyrir sterka stöðu Amazon

Kostar áskriftin að Walmart+ 98 dali á ári, sem samsvarar 13.500 krónum, meðan árgjaldið að Amazon Prime samsvarar 119 dölum, eða 16.400 krónum. Í áskriftunum felst ótakmarkað magn ókeypis heimsendinga, en í áskrift Walmart þarf að kaupa fyrir að lágmarki 35 Bandaríkjadali. Walmart hefur það þó framyfir Amazon að í henni felst afsláttur af eldsneyti.

Markaðskannanir virðast gefa til kynna að Walmart geti haft erindi sem erfiði við að keppa við netrisann, þó hann hafi náð mjög sterkri stöðu á markaðnum. Þannig sýnir könnun UBS að 57% viðskiptavina Walmart séu tilbúnir til að kaupa áskriftina, og könnun Digital Commerce 360 sýnir að 48% af þeim sem versla á netinu telja mögulegt að þeir kaupi áskrift að Walmart+.

Sumir virðast jafnvel tilbúnir að nýta sér báðar þjónusturnar, en 30% viðskiptavina Amazon hafa áhuga á að nýta þjónustu Walmart samkvæmt könnun félagsins. Meira en 90% Bandaríkjamanna versla hjá Walmart að minnsta kosti einu sinni á ári, sem gerir um 115 heimili.

Gæti aukið sölu Walmart um nærri þriðjung

Með því að bæta við sig um 10 milljón notendum við netáskriftarþjónustuna, sem myndu eyða um 100 dölum á mánuði, gæti sala félagsins á árinu 2022 aukist um 30%. Loks geti aukin umferð á heimasíðu félagsins aukið auglýsingatekjur, jafnvel þó Tik Tok komi ekki til.

Netauglýsingasala Walmart jókst um 97% á síðasta ársfjórðungi, eftir að það stofnaði auglýsingasölufélag á síðasta ári, og í júlí tilkynnti félagið um samstarf við Shopify sem opnar aðgang 1.200 smáfyrirtækja í netverslun fyrirtækisins.

Í dag nýtur Walmart.com um 400 milljón mánaðarlegra heimsókna, en í umfjöllun WSJ segir að þó að betra hefði verið fyrir fyrirtækið að setja áskriftarþjónustuna af stað þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst, séu enn tækifæri fyrir verslunarrisann að ná fótfestu.

Það séu því enn tækifæri í hlutabréfum Walmart, þó ekki verði úr yfirtöku TikTok sem geti hjálpað fyrirtækinu að ná til viðskiptavina. Það virðist alla vega ætla að halda áfram að berjast við Amazon, nú með stóra sparnaðardeginum, Big Save, sem mun verða sama dag og Prime Day Amazon 13. til 14. október næstkomandi.