*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Erlent 9. janúar 2020 10:44

Walsh yfirgefur IAG

Forstjóri móðurfélags British Airways, Iberia, Aer Lingus og Vueling mun láta af störfum í lok annars ársfjórðungs.

Ritstjórn
Willie Walsh, fráfarandi forstjóri IAG.
epa

Willie Walsh forstjóri flugfélagasamsteypunnar International Airlines Group (IAG) mun láta af störfum þann 31. Mars næstkomandi og mun í lok júní hætta í stjórn fyrirtækisins. Þetta kemur fram í frétt BBC

IAG varð til árið 2011 þegar British Airways og spænska flugfélagið Iberia sameinuðust. Samsteypan innheldur einnig flugfélög á borð við írska flugfélagið Aer Lingus og spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling. 

Luis Gallego, sem stýrt hefur Iberia frá 2014 mun taka við af Walsh. 

Walsh sem er írskur hefur starfað hjá fyrirtækjum samsteypunnar nær samfleytt frá árinu 1979, þegar hann var 17 ára gamall ráðinn sem flugmaður hjá Aer Lingus. Meðan hann starfaði sem flug maður kláraði hann MBA gráðu frá Trinity College í Dublin. Árið 1998 varð hann forstjóri dótturfélags Aer Lingus, Futura en árið 2000 varð hann framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Aer Lingus og ári seinna varð hann forstjóri félagsins. 

Hann lét af störfum hjá Aer Lingus í janúar 2005 og starfaði til skamms tíma hjá Virgin Atlantic en í október sama ár var hann ráðinn forstjóri British Airways og við sameiningu félagsins við Iberia árið 2011 varð hann svo forstjóri IAG. 

Í frétt BBC er haft eftir Walsh að það hafi verið forréttindi að fá koma að sköpun IAG. Það hefur verið mikil ánægja að fá að starfa með mikið af framúrskarandi fólki á síðustu 15 árum hjá British Airways og IAG.