Enn eitt árið fjölgaði konum á lista viðskiptatímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heimsins. Þrátt fyrir það er hlutfall þeirra á listanum heldur lágt, en þær telja aðeins 197 af 1.826 milljarðamæringum í heild.

Samkvæmt listanum er Christy Walton, hluthafi verslanakeðjunnar Wal-Mart, ríkasta kona heims og er auður hennar metinn á 41,7 milljarða Bandaríkjadala. Fjárhæðin jafngildir um 5.600 milljörðum íslenskra króna. Það er hins vegar aðeins rúmur helmingur auðs ríkasta manns í heimi - Bill Gates - en auður hans er metinn á 79,2 milljarða dala.

Næstríkasta konan er Liliane Bettencourt, einn eigenda snyrtivörukeðjunnar L'Oreal, og situr hún í sama sæti og á síðasta ári. Auður hennar er metinn á 40,1 milljarð dala. Í þriðja sæti situr svo Alice Walton, mágkona Christy Walton, með 39,4 milljarða dala.

Lista yfir tuttugu ríkustu konur heimsins má sjá hér .