Warner Music Group hefur ákveðið að skrá hlutabréf félagsins á markað. Frumútboðið yrði það stærsta frá því að heimsfaraldurinn olli titringi á hlutabréfamörkuðum heimsins. Financial Times segir frá.

Útgáfufyrirtækið, sem er í eigu milljarðamæringsins Len Blavatnik, tilkynnti í dag að það myndi selja 14% hlut í fyrirtækinu eða um 70 milljónir hluta á viðmiðunarverði í kringum 23-26 dollara. Virði fyrirtækisins væri þá á milli 11,7 og 13,3 milljarða dollara en Blavatnik keypti það á 3,3 milljarða dollara árið 2011.

Fyrirtækið hafði upphaflega stefnt að því að útboðið færi fram í febrúar en því var frestað vegna faraldursins. Það hefur nú ákveðið að hrinda því aftur af stað eftir markaðir tóku við sér á ný.

Access Industries, fjárfestingarfyrirtæki Blavatnik, mun fá allan ágóða sölunnar og halda meirihluta atkvæðaréttar af útistandandi almennu hlutafé Warner Music.

Tónlistariðnaðurinn hefur hrist af sér efnahagsáhrif Covid veirunnar nokkuð vel þar sem streymisþjónustur hafa ekki orðið fyrir miklum truflunum á starfsemi. Hlutabréf í Spotify hafa til að mynda hækkað um 25% það sem af er ári.

Þrír risar drottna yfir hljómplötuiðnaðinn en það eru Universal Music, Sony Music og Warner Music. Universal Music og Sony Music tilheyra stórum frönskum og japönskum samsteypum en Warner Music er í einkaeigu Access Industries.