Warren Buffet sagði í samtali við CNBC fyrr í dag að það væri fjarri því óhugsandi að evran gæti fallið.

„Ég veit að sumu fólki þykir það óhugsandi....en mér finnst það ekki óhugsandi“ sagði hinn áttræði fjárfestir í viðtalinu.

Buffett telur að gríðarleg áhersla verði lögð á að verja evruna.  Á sama tíma verða þau ríki sem eru í erfiðleikum líkt og Portúgal að finna lausn sinna mála.

„Það gengur ekki að þremur eða fjórum eða fimm löndum sé í raun haldið upp af öðrum  löndum [Evrópu].  Það gengur ekki til lengdar“ sagði Buffett jafnframt.

Samkvæmt lista Forbes er Buffett þriðji ríkasti maður heims og nema eignir hans um 50 milljörðum bandaríkjadala.