Árið í fyrra var versta ár Berkshire Hathaway, eignarhaldsfélags Warren Buffet, frá því núverandi stjórnendur tóku við fyrir 44 árum. Þetta kemur fram í bréfi Buffet til hluthafa sem birt er í ársskýrslu félagsins. Í bréfinu segist hann sannfærður um að hagkerfið verði í rúst á þessu ári og líklega mun lengur. Það segi þó ekkert til um hvort hlutabréfamarkaðurinn muni rísa eða falla. Hann segir hagkerfið hafa tekist á við mikla og langvarandi erfiðleika áður og að það muni rísa á ný. „Bestu dagar Bandaríkjanna eru framundan,“ segir hann í bréfinu.

20,3% meðalávöxtun á 44 árum

Hagnaður Berkshire Hathaway minnkaði úr rúmum 13 milljörðum dala árið 2007 í tæpa 5 milljarða dala í fyrra. Arðsemin var neikvæð um 9,6% og hefur aðeins einu sinni áður verið neikvæð. Það var árið 2001 þegar hún var neikvæð um 6,2%. Félag Buffets gerði engu að síður betur en S&P 500 hlutabréfavísitalan, sem skilaði fjárfestum neikvæðri ávöxtun upp á 37% að meðtöldum arðgreiðslum, að því er segir í ársskýrslunni. Meðalávöxtun Berkshire Hathaway síðustu 44 árin hefur verið 20,3%, en 8,9% fyrir S&P 500 vísitöluna.

Aðeins traust á Guði og reiðufé

Buffet segir í bréfi sínu að árið í fyrra hafi verið skelfilegt hvort sem litið sé til skuldabréfa fyrirtækja eða sveitarfélaga, fasteigna eða hrávöru. Þetta hafi valdið mikilli ringulreið, lífshættuleg vandamál hafi komið í ljós í mörgum af helstu fjármálafyrirtækjum heims og lánsfjármarkaðurinn hafi að mörgu leyti orðið óvirkur. Buffet segir að um allt land hafi menn haft á orði það sem hann hafi lesið á vegg í veitingahúsi þegar hann var ungur maður: „Við treystum Guði, allir aðrir greiða með peningum.“