Fjárfestirinn slyngi, Warren Buffet, tilkynnti á dögunum að hann ætlaði að gefa auðæfi sín til góðgerðarmála og að megnið myndi renna í sjóð góðvinar hans, Bill Gates. Sá hinn sami hefur nú sagt að hann ætli að draga sig í hlé frá daglegum rekstri Microsoft svo hann geti einbeitt sér að því að koma þessum fjármunum þangað þar sem þeirra er mest þörf.

Fjárhæðin sem um ræðir er um USD 40 milljarðar og munu um 33 milljarðar renna í sjóðinn The Bill and Melinda Gates Foundation (BMGF), en í honum eru nú um USD 30 milljarðar sem Bill Gates hefur lagt til hans. Hingað til hefur það verið hald manna að Buffet myndi ekki láta þetta fé af hendi rakna fyrr en við andlát sitt, en haft er eftir honum að hann telji að það sé ekki eftir neinu að bíða. Alls mun Buffet ráðstafa um 85% þess fjár sem bundið er í hlutabréfum hans í Berkshire-Hathaway og mun þessi tilfærsla eiga sér stað yfir fyrirfram skilgreint tímabil.

Með þessum gjörningi mun Buffet verða einn af forstöðumönnum BMGF, en fyrir í þeim hópi eru hjónin Bill og Melinda Gates. Hann setur þau skilyrði að sjóðurinn auki þá fjárhæð sem hann úthlutar árlega um sem nemur framlagi hans, auk þess sem hann segir það forsendu þess fyrirkomulags að Gates-hjónin eða annað hvort þeirra sé við stjórnvöl sjóðsins.