Nú hefur Warren Buffett, auðkýfingurinn og fjárfestirinn sem er heimsfrægur fyrir velgengni sína í geiranum, verið orðaður við að vera meðal annarra hugsanlegra kaupenda að netrisanum Yahoo sem þekktastur er einna helst fyrir samnefnda leitarvél sína. Financial Times segir frá þessu.

Sagt er að Buffett hafi skrifað undir viðskiptatilboð og heitið fjármagni ef til kaupanna kæmi. Leiðtogi hópsins sem Buffett er sagður vera hluti af heitir Dan Gilbert og er stofnandi fyrirtækisins Quicken Loans. Þegar hafa Verizon, fjárfestingasjóðir og eigandi Daily Mail lýst yfir áhuga sínum á kaupunum.

Buffett er þekktur fyrir að hafa lýst því yfir að ekki ætti að fjárfesta í fyrirtækjum hverra rekstur maður skildi ekki. Fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway, hefur að mestu látið tæknigeirann vera - fyrir utan hluti félagsins í IBM - en á síðasta hluthafafundi játaði Warren að Berkshire hefði verið hægfara hvað varðar tækniiðnaðinn.

Buffett tjáði sig þá síðast um Yahoo þann 2. maí síðastliðinn þegar hann sagði í viðtali að rekstur Yahoo hefði versnað talsvert og að „eitthvað þyrfti að breytast þar á bæ,” en þá minntist hann ekki á nein kauptilboð eða þvíumlíkt. Það var fréttastofa Reuters sem greindi fyrst frá þessu tilboði og hlut Buffett í því.