Eins og greint hefur verið frá beinir bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett, ríkasti maður heims, nú sjónum sínum til Evrópu í leit að hagstæðum kauptækifærum. Buffett sagði í dag að hann mundi einnig halda áfram að kaupa bandarísk fyrirtæki.

„Við mundum kaupa fyrirtæki í hvaða landi sem er í heiminum, ef við teljum okkur skilja fyrirtækið nægilega vel,“ sagði Buffett. Hann lagði áherslu á að hann þyrfti að vera nokkuð viss um hvernig tiltekinn bransi yrði eftir 10 til 20 ár áður en hann fjárfesti í honum, samkvæmt frétt Reuters.

Buffett er nú á ferð um Evrópu í leit að fjárfestingartækifærum. Á blaðamannafundi í IMD viðskiptaháskólanum í Sviss var hann spurður að því hvort hann leitaði tækifæra á Evrópumarkaði vegna þess að bandarískar fjárfestingar hafi valdið vonbrigðum sagði Buffett svo ekki vera. Þvert á móti þætti honum gott að eiga viðskipti í Bandaríkjunum og hann vænti þess að halda áfram að kaupa fyrirtæki þar.