Bershire Hathaway, fjárfestingarfélag bandaríska milljarðamæringsins Warren Buffett ætlar að kaupa útgáfufélagið The Omaha World-Herald Company. Fyrirtækið gefur út dagblaðið The Omaha World-Herald og sex önnur dagblöð til viðbótar. Buffett fæddist sem kunnugt er í Omaha fyrir 81 ári og býr þar enn.

Tilkynnt var um kaupin á hluthafafundi útgáfufélagsins en athygli vakti þegar Buffett birtist þar án þess að gera boð á undan sér.

Kaupverðið nemur 200 milljónum dala, jafnvirði 23,7 milljarða króna. Þar af greiðast 150 milljónir út í reiðufé en afgangurinn felst í yfirtöku skulda. Gert er ráð fyrir því að kaupin gangi í gegn um áramótin.

Kaupverðið er klink í augum Buffetts sem hefur um árabil verið með efstu mönnum á lista yfir auðugustu einstaklinga í heimi. Á síðasta lista tímaritsins Forbes nam verðmæti eigna hans 50 milljörðum dala, jafnvirði rétt tæpra 6.000 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar er landsframleiðsla Íslands um 1.500 milljarðar króna.

Í tilkynningu sem Buffett sendi frá sér í tengslum við kaupin kemur fram að hann telji útgáfufélagið með þeim traustari í dagblaðabransanum.