Fjárfestingarfyrirtæki Warren Buffett, Berkshire Hathaway hefur ákveðið að kaupa tómatsósuframleiðandann HJ Heinz fyrir um 23 milljarða dala. Með Berkshire Hathaway í kaupunum er félagið 3G Capital.

Kaupendur munu greiða um 72,5 dali fyrir hvern hlut í fyrirtækinu, en gengi hlutabréfanna í gær var 60,48 dalir á hlut. Hlutur Berkshire í kaupunum verður um 12-13 milljarðar dala og þá munu kaupendurnir einnig taka yfir skuldir fyrirtækisins. Þegar skuldayfirtakan er tekin með í reikninginn er samningurinn um 28 milljarða dala virði.

Buffett hefur verið að leita að fjárfestingartækifærum til að koma þeim 45 milljörðum dala, sem Berkshire situr á í lausu fé, í vinnu. Hann hefur t.d. keypt hlut í Coca Cola fyrirtækinu og fjármagnaði svo kaup Mars Inc. á tyggigúmiframleiðandanum Wrigley.