„Skuldabréf, sem sögð voru skila áhættulausri ávöxtun, eru nú verðlögð eins og áhætta sem ekki skilar ávöxtun,“ skrifar hinn aldni Warren Buffett, forstjóri bandaríska fjárfestingarfélagsins Berkshire Hathaway. Fjárfestirinn sem fagnar 82 ára afmæli á árinu, fjallar um aðstæður á fjármálamörkuðum og þá fjárfestingarkosti sem í boði eru í dag í árlegu fréttabréfi sínu til hluthafa félagsins.

Buffett bendir á að kaup á hlutabréfum framleiðslu- og neytendafyrirtækja séu alla jafna hagstæður fjárfestingarkostur í verðbólguskoti. Óvíst hvort aðrir kostir séu jafn hagstæðir og hvaða gjaldmiðlar verði við lýði á næstu áratugum. Það skipti litlu þar sem neytendur muni ævinlega þurfa að afla sér lausafjár með einum eða öðrum hætti til að kaupa það sem aðrir framleiði eða selji.Þessir fjárfestingarkostir hafi af þeirri ástæðu forskot á aðra.

Buffett kemur jafnframt inn á skuldabréf í bréfi sínu en hann líkir þeim við eitt form af reiðufé. Hann bendir á að þótt Berkshire Hathaway hafi í gegnum tíðina átt nokkuð af skammtímabréfum, að mestu leyti bandarískum ríkisskuldabréfum, í eignasafni sínu þá sé hann sjálfur mótfallinn kaupum á þess háttar eignum. Hann bendir á að fyrirtækið láti ríkisskuldabréfin vera um þessar mundir, bæði séu þau ekki hagstæður kostir miðað við núverandi vaxtastig auk þess sem verðlagning þeirra séu út úr kortingu.

Bréf Buffetts til hluthafa er birt í nýjasta tölublaði bandaríska tímaritsins Forbes.