Warren Buffett, stjórnarformaður Berkshire Hathaway og þriðji ríkasti maður heims, hefur nú lokið geislameðferð með góðum árangri vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

Frá þessu er greint á vef Omaha World-Herald, en Buffett er sem kunnugt er frá Omaha.

Buffett, sem er 82 ára gamall, upplýsti blaðamenn blaðsins í gær að hann hefði lokið 44 daga geislameðferð en hann greindist með krabbamein í apríl sl.

Í febrúar sl. var Buffett spurður um það hver myndi taka við Berkshire Hathaway eftir hans daga. Hann sagðist þá, í meira gamni en alvöru, hvergi vera á förum enda væri hann að stefna að því að verða elsti lifandi maður nútímans. Hann sagði þó að búið væri að ákveða hver myndi taka við af honum en vildi ekki upplýsa hver það væri, enda vissi viðkomandi það ekki sjálfur.